Óánægja, bæði ASÍ og SA, með ríkisstjórnina hefur svo sem ekki farið framhjá neinum en Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, hefur margoft sl. vikur og mánuði gagnrýnt aðgerðir, eða öllu heldur aðgerðarleysi, stjórnvalda.

Aðspurður um þetta segir Gylfi að svo virðist sem skilningur stjórnvalda á samráði sé mjög grunnur og ekki í neinu samhengi við væntingar ASÍ.

„Að sumu leyti höfum við beint sömu gagnrýni að ríkisstjórninni eins og stjórnarandstaðan, að þetta séu meiri svona myndatökufundir til að gefa ásýnd af einhverju sem er ekki í reynd, þ.e. að verið sé að vinna saman í því að finna lausnir,“ segir Gylfi.

„Við höfum reynt að vera úrræðagóð og okkar ársfundarfulltrúar hafa lagt fram mikið magn af mjög góðum hugmyndum, bæði hvað varðar vandamál heimila, fyrirtækja, fjármálamarkaði, siðferðislega ábyrgð sem og aðrar hugmyndir að betra samfélagi.“

En maður kemst ekki hjá því að spyrja, var þetta ekki stjórnin sem ASÍ hafði vonast eftir?

„Nei, alls ekki. ASÍ hefur ekki verið með neina pólitíska stefnu um það hvernig ríkisstjórn er samansett. Við kynntum okkar áætlun öllum flokkum fyrir kosningar um hvað þyrfti til að koma hér á stöðugleika. Við eigum síðan samstarf við þá ríkisstjórn sem situr hverju sinni. Við höfum auðvitað krafist þess að launafólk hafi áhrif á gang mála og að á okkur sé hlustað. Það er ekkert öðruvísi með þessa ríkisstjórn. Ef ríkisstjórnin gerir það ekki, og það höfum við upplifað með bæði vinstri og hægri stjórnir, þá auðvitað gagnrýnum við það, algjörlega óháð því hvaða flokkar mynda ríkisstjórnir.“

Gylfi segir þó að sú hugmyndafræði, að verkalýðshreyfingin eigi beina aðild að vinstri stjórnum, sé svo sem ekki ný af nálinni. Þannig hafi það verið þegar ASÍ var stofnað árið 1916, en þá var Alþýðuflokkurinn hluti af sambandinu . Snemma á sjöunda áratugnum var gert breitt samkomulag við Viðreisnarstjórnina, sem Sjálfstæðisflokkurinn stýrði, þar sem dregnar voru upp útlínur að því hvernig samskipti á vinnumarkaði ættu að fara fram.

„Að þessu leyti hefur íslenska leiðin verið ólík því sem gerist á Norðurlöndunum, við höfum þannig ekki byggt afkomu okkar á neinum einum flokki,“ segir Gylfi.

„Það hefur verið gert í Skandinavíu þar sem módelið er meira í formi beinna samskipta milli verkalýðshreyfingar og krataflokka, en þannig er það ekki hér og hefur ekki verið um 70 ára skeið. Við söknum þess ekkert. Það er alveg rétt að einstaka forystumenn í verkalýðshreyfingunni hafa verið áberandi í þjóðfélagsumræðunni en í miðstjórn ASÍ situr fólk úr öllum flokkum. Það væri mikið í lagt að kalla þá sérstaka talsmenn Samfylkingarinnar.“

_____________________________

Nánar er rætt við Gylfa í ítarlegu viðtali í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .