Í umræðum um komandi kjaraviðræður vakti athygli blaðamanns þegar Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, sagði að ef ekki tækist að semja um mikilvæg atriði, s.s. styrkingu krónunnar sem leiði af sér lægri skuldir og aukinn kaupmátt, myndi ASÍ hiklaust taka upp röksemdarfærslu Orkuveitunnar.

Eftirfarandi kafli rataði ekki i prentútgáfuna af ítarlegu viðtali við Gylfa en er birtur í heild sinni hér. Þegar blaðamaður bað um nánari útlistun á því útskýrir Gylfi hana þannig:

„Við, heimilin í landinu, erum í mjög miklum rekstrarvanda. Við erum búin að skera niður í rekstri heimila eins og við getum og það er erfitt að fækka fólki. Við erum í miklum vanda með okkar lánastofnanir og okkur gengur illa að semja um afborganir. Við einfaldlega náum ekki endum saman og þess vegna þarf að hækka tekjur heimilisins um 25%. Þessi rök eiga nákvæmlega við um stöðu heimilanna eins og stöðu Orkuveitunnar," segir Gylfi.

„Við þurfum að mæta í góðum gönguskóm í þessa vegferð. Ef menn ætla hins vegar að fara í leik sem felur í sér spretthlaup þá munum við ekki mæta í þungum gönguskóm heldur bregða okkur í gaddaskóna og verða tilbúnir í spretthlaupið – en það kann að kosta miklar fórnir í slagnum."

_____________________________

Nánar er rætt við Gylfa í ítarlegu viðtali í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .