„Við gerðum ráð fyrir að þetta yrði verst á öðrum ársfjórðungi og það virðist ætla að rætast,“ segir Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ í samtali við Viðskiptablaðið en í morgun var greint frá því að fjöldi einstaklinga sem skráðir eru atvinnulausir er nú kominn yfir 17 þúsund.

Gylfi segir að þó verulega hafi hægt á aukningu atvinnuleysis síðustu vikur sé þeim enn að fjölga.

„Þetta er hræðilegt ástand,“ segir Gylfi og telur að ekki sé nóg að gert til að koma í veg fyrir frekara atvinnuleysi.

„Það er lítið verið að gera við því núna. Það eru kosningar framundan og umræðan á Alþingi hefur farið í hefðbundið þras.“

Gylfi segir að Alþingi sé nú að einbeita sér að málum sem litlu máli skipti á meðan aðstæður í atvinnulífinu eru eins og raun ber vitni. Hann segir mikilvægt að til skamms tíma þurfi Alþingi að beita sér fyrir því að skapa vissu fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu.

Þá segir Gylfi einnig að hér á landi vanti umræðu meðal stjórnmálamanna um framtíðar skipan peninga- og vaxtamála.

Hann segir að hér á landi séu bæði gjaldeyrishöft og háir stýrivextir sem geri hlutina enn verri og bætir því að nauðsynlegt sé að sækja um aðild að Evrópusambandinu (ESB) þó útilokað sé að núverandi minnihlutastjórn geri.

Aðspurður um aðild að ESB og hækkandi atvinnuleysi meðal evruríkja segir Gylfi að hér sé verið að „múra okkur inn í lokuðu hagkerfi,“ eins og hann orðar það og vísar aftur til gjaldeyrishaftanna.

„Það er enginn leið að framkalla hagvöxtu við þessar aðstæður. Við eigum að vera í samstarfi Evrópuþjóða og ná vöxtum þannig niður.“