Það er ánægjulegt að sjá verðbólguna vera á niðurleið en veikt gengi krónunnar seinkar engu að síður lækkun verðbólgunnar.

Þetta segir Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ í samtali við Viðskiptablaðið en eins og fram kom í morgun mælist 12 mánaða verðbólga nú 11,3% og lækkar úr 12,2% milli mánaða.

Gylfi segir að gengi krónunnar sé nú helsti áhrifavaldurinn en annars stefni allt í að verðbólgan fari hratt niður.

Gylfi segist þannig búast við því að verðbólgan haldi áfram að lækka og það nokkuð hratt. Aðspurður um mögulegt stýrivaxtalækkunarferli Seðlabankans segir Gylfi að miðað við þær forsendur sem Seðlabankinn hafi hingað til gefið sér sé lítið tilefni til annars en að lækka stýrivexti.

„Það er enginn verðbólguþrýstingur um þessar mundir,“ segir Gylfi og vísar til þess að vísitalan neysluverðs hækkaði einungis um 0,17% milli mánaða í júní.

„Veiking krónunnar seinkar hins vegar því lækkunarferli sem við áttum von á.“

Icesave málið velduð óvissu

Þá segir Gylfi að helsti óvissuþátturinn núna sé Icesave málið sem bíður afgreiðslu á Alþingi. Úr því verði að leysa sem fyrst til að koma hjólum efnahagslífsins í gang á ný.

Gylfi segir að það hafi verið vitað frá því í haust að Ísland þyrfti að taka á sig ábyrgð vegna Icesave málsins en fyrr en það gerðist myndu hjólin snúast hægt, meðal annars með áframhaldandi atvinnuleysi sem Gylfi segir að sé helsta vandamál efnahagslífsins um þessar mundir.

„Ég er ekki að segja að þetta sé í lagi, þetta er skelfilegt mál,“ segir Gylfi og vísar til ábyrgðar ríkisins vegna málsins.

„En það breytir því ekki að við þurfum að standa við okkar skuldbindingar. Það er furðulegt að menn skuli tala með þeim hætti á Alþingi að við séum gjaldþrota vegna þessa máls. Það hægir á allri uppbyggingu og eykur ekki trúverðugleika. Á meðan staðan er þannig mun enginn vilja lána íslenskum fyrirtækjum og þá gefur augaleið að atvinnuleysi mun ekki dvína.“