„Ég held að við getum farið að krossa okkur enda ljóst að vaxtamunur á milli Íslands og Evrópu, sem nú þegar er 4,5%, er alltof mikill. Seðlabankinn telur það slaka peningamálastefnu og boðar að herða þurfi aðhaldið með hækkun vaxta. Ef við setjum þetta í samhengi við það sem er að gerast í kringum okkur þá stefnir í að hér muni draga verulega úr öllu. Við erum komin í slíka stöðu að við getum bara slökkt á vélinni,“ segir Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands, ASÍ.

Seðlabankinn greindi frá þeirri ákvörðun Peningastefnunefndar fyrir stundu að vöxtum verði haldið óbreyttum í 4,75% að sinni. Í yfirlýsingu nefndarinnar segir að eftir því sem efnahagsbatanum vindi fram og dragi úr slaka í þjóðarbúskapnum verði nauðsynlegt að draga úr slaka peningastefnunnar. Í endurskoðaðri hagspá ASÍ næstu tvö árin sem birt var í gær er gert ráð fyrir að Seðlabankinn verði áfram með strang aðhald í peningamálum þrátt fyrir takmarkaða heildareftirspurn og lítinn hagvöxt. Gert er ráð fyrir því í spánni að Seðlabankinn haldi áfram að hækka vexti þar til böndum verði komið á verðbólguna og fari vextirnir í 6,9% á árinu. Eftir það muni þeir lækka og verða komnir í 4,7% árið 2014.

Getum farið að krossa okkur

Gylfi segir yfirlýsingu Peningastefnunefndar boða slæm tíðindi. „Ég held að við getum farið að krossa okkur enda ljóst að vaxtamunur á Íslandi og Evrópu, sem þegar er hár, muni aukast frekar,“ segir hann og bendir á að fyrir hvert prósent þurfi ríkissjóður að greiða 14 milljarða króna. Miðað við það sé kostnaður ríkissjóðs vegna vaxtamunarins nú þegar 63 milljarðar króna og muni hann aukast í takt við aðhald peningastefnunnar.

„Við erum komin í sjálfheldu. Verðbólgan er fyrst og fremst vegna veikingar krónunnar. En gengi hennar er yfir 20% undir sögulegu meðalgengi. Það þýðir að þessi gjaldeyrir sem við búum við er kominn með þjóðina í öngstræti,“ segir Gylfi.