Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, virðist ekki spenntur fyrir endurreisn Þjóðhagsstofnunar ef marka má færslu á Facebook- síðu hans í gær. Eygló Harðardóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, hefur lagt fram tillögu á Alþingi um að stofnuð verði Þjóðhagsstofa sem starfa á í anda þess sem áður hét Þjóðhagsstofnun.

„Fyrir okkur sem störfuðum með Þjóðhagsstofnun munum e.t.v. betur eftir því að stofnunin var aldrei ,,óháð“ í sínum störfum,“ segir Gylfi í færslu sinni. „Hún var verkfæri ríkisstjórnar og heyrði undir forsætisráðherra. ASÍ gat aldrei treyst því að lögbundið hlutverk hennar að reikna út valkosti í hagstjórn væri trúnaðarmál gagnvart ráðherranum! [...] Væri ekki nær að fara að tillögu ASÍ frá 2002 og stofna sjálfstæða stofnun sem fræðasamfélagið og aðilar vinnumarkaðar stjórna og hafi í raun sjálfstæði í greiningum.“