Eins og Viðskiptablaðið greindi frá í lok desember sl. var eiginfjárhlutfall Eimskips þá nokkuð hátt, eða um 60%. Skiptar skoðanir eru um hvort svo hátt eiginfjárhlutfall sé hagkvæmt fyrir félag sem á að skrá á markað en þó má gera ráð fyrir að það hafi minnkað eitthvað þar sem félagið er nýbúið að fjárfesta í tveimur frystiskipum.

Eimskip átti um áramót um 50 milljónir evra í lausafé. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hefur það heldur orðið til þess að fjárfestar hafi sýnt félaginu meiri áhuga en hitt. Þeir hafa þó rekist á vegg sem heitir Gylfi Sigfússon og er forstjóri, en eftir því sem Viðskiptablaðið kemst næst hefur hann staðið vörð um lausafé félagsins og þeir sem hafa lýst yfir áhuga á því að lækka hlutfallið mikið hafa fengið þurrar móttökur.

Í öllu þessu ferli nýtur Gylfi þó stuðnings stærstu eigendanna, Yucaipa og gamla Landsbankans, sem ætla sér samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins ekki að horfa á félagið fara í gegnum aðra fjárhagslega endurskipulagningu á næstu árum.

Nánar er fjallað um skráningu Eimskips í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.