Gylfi Arnbjörnsson, sem hefur verið forseti ASÍ frá árinu 2008, hyggst bjóða sig fram til endurkjörs forseta á þingi ASÍ í október. Þetta tilkynnti hann miðstjórn Alþýðusambandsins í dag, að því er fram kemur á vef ASÍ.

Gylfi sendi starfsmönnum ASÍ tölvupóst nú síðdegis þar sem hann greindi frá þessari ákvörðun sinni. Í tölvupóstinum sagðist hann, aldrei þessu vant, hafa verið í nokkrum vafa um hvort hann ætti að bjóða sig fram til endurkjörs eftir stormasaman vetur. Hann sagðist þó enn hafa gaman af starfinu og hlakki til að takast á við komandi verkefni.

Signý Jóhannesdóttir, varaforseti ASÍ, tilkynnti við sama tilefni að hún muni ekki bjóða sig fram til endurkjörs. Hún hefur gegnt embætti varaforseta sl. fjögur ár.