Gylfi Þór Sigurðsson er launahæsti íslenski atvinnumaðurinn í knattspyrnu og hefur þénað um fjóra milljarða króna fyrir skatta á sínum atvinnumannaferli í knattspyrnu samkvæmt samantekt Viðskiptablaðsins. Viðskiptablaðið hefur undanfarinn áratug birt upplýsingar um tekjur íslenskra atvinnumanna í ritinu Áramótum. Alls hafa íslenskir atvinnumenn fengið vel á annan tug milljarða greidda í laun undanfarinn áratug.

Gylfi Þór hækkaði þónokkuð í launum þegar hann gekk til liðs við Everton árið 2017 en hann á þrjú og hálft ár eftir af samningi sínum við liðið. Gylfi er langsamlega launahæsti íslenski atvinnumaðurinn og stefnir í að laun hans verði ekki langt frá launum Eiðs Smára Guðjohnsen þegar ferlinum lýkur. Gylfi jafnaði um helgina markafjölda Eiðs Smára í ensku úrvalsdeildinni með sínu 55. marki og er Gylfi meðal fimmtán markahæstu miðjumannanna í sögu ensku úrvalsdeildarinnar.

Aðrir lykilmenn í íslenska landsliðinu eru nokkuð á eftir Gylfa en tekjur þeirra frá 2009-2018 nema um milljarði króna fyrir skatta. Í þeim flokki eru Aron Einar Gunnarsson landsliðsfyrirliði og Jóhann Berg Guðmundsson sem báðir leika í ensku úrvalsdeildinni, ásamt Kolbeini Sigþórssyni, leikmanni Nantes , og Alfreð Finnbogasyni leikmanni Augsburg . Kolbeinn Sigþórsson hefur glímt við alvarleg meiðsli undanfarin ár og hefur því nær ekkert leikið frá því að EM í Frakklandi lauk árið 2016. Hann hefur hins vegar ekki viljað fara í önnur lið, sem að líkindum myndu bjóða honum lægri laun en hann á 18 mánuði eftir af samningi sínum við Nantes .

Samkvæmt upplýsingum sem komu fram í Áramótum Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar námu laun Kolbeins um 130 milljónum króna í fyrra. Alfreð hefur tekið við hlutverki Kolbeins sem aðalframherji landsliðsins og átt góðu gengi að fagna með félagsliði sínu Augsburg í þýsku úrvalsdeildinni. Laun Alfreðs hafa því hækkað nokkuð á síðustu árum og námu um 200 milljónum króna í fyrra.

Tekjur íþróttamanna
Tekjur íþróttamanna
© vb.is (vb.is)

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem út kom í morgun, fimmtudaginn 24. janúar 2019. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .