Gylfi Magnússon, dósent við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, segir fáar samkeppniseftirlitsstofnanir í okkar heimshluta vera jafn mikilvægar eins og íslenska samkeppniseftirlitið. Hann telur að efnahagskreppan hafi veitt gullið tækifæri til endurskipulagningar íslenska viðskiptaumhverfisins og að því tækifæri hafi að einhverju leyti verið sóað. Þetta er meðal þess sem kom fram í erindi Gylfa á norrænni ráðstefnu um samkeppnismál sem haldin var af Samkeppniseftirlitinu á dögunum.

Gylfi sagði aukna samþjöppun í viðskiptalífinu og óljós eignartengsl hafa valdið samkeppnisyfirvöldum vandræðum fyrir hrun. Smæð Íslands hafi alltaf valdið vandræðum fyrir samkeppni á Íslandi þar sem einungis séu tvö til fjögur fyrirtæki í hverjum geira sem séu minni en fyrirtækin í nágrannalöndunum og þjáist af skorti á stærðarhagkvæmni.

Hann sagði það hafa verið raunverulega ógn eftir hrunið að bankarnir væru að endurskipuleggja fyrirtæki með hætti sem torveldaði samkeppni. „Ástæða þess er sú að geta fyrirtækja til að afla einokunarrentu eykur að öllu jöfnu verðmæti hlutanna í fyrirtækinu þegar þau eru seld eftir endurskipulagningu, og eykur það því söluhagnað bankanna,“ sagði Gylfi.

Yfirburðir lífeyrissjóðanna eru vandamál

Mörg fyrirtæki standa enn á veikum grunni að mati Gylfa. Hann telur að lítil fjárhagsleg geta margra eigenda til að standa að fjárfestingum og berjast um markaðshlutdeild geti leitt til „kósý“ fyrirkomulags þar sem öll félög hafi tiltölulega jafna markaðshlutdeild og háa álagningu.

Þá talaði hann um yfirburði lífeyrissjóða meðal eigenda fyrirtækja hér á landi. „[Yfirburðarstaða lífeyrissjóðanna] er ekki mjög jákvæð þróun af mörgum ástæðum, þar á meðal að hún leiðir til samþjöppunar eignarhluta í einstökum fyrirtækjum og stundum jafnvel til þess að sami fjárfestirinn, eða tengdir fjárfestar, eiga hluti í tveimur eða fleiri samkeppnisaðilum.“

Akkilesarhællinn enn til staðar

Gylfi sagði endurskipulagningu íslenska hagkerfisins að mestu leyti vera lokið og að hagvísar væru að mestu leyti heilbrigðir. „Að því sögðu er Akkilesarhæll hagkerfisins ennþá til staðar. Fyrirtæki sem keppa fyrst og fremst á staðbundnum markaði og eru vernduð fyrir innflutningi standa ennþá frammi fyrir lítilli samkeppni og þjást af ónægri stærðarhagkvæmni. Það hefur í raun ekki breyst.“

Hann velti upp þeirri spurningu hvort gullnu tækifæri til að endurskipuleggja fyrirtækjageirann á Íslandi hefði verið sóað. „Kannski að einhverju leyti, en ég held að sanngjörn greining myndi benda til þess að undirliggjandi vandamálin hafi verið svo alltumlykjandi að það þurfti meira heldur en djúpa kreppu til þess að leysa þau.“

Líkti hruninu við skapandi eyðileggingu

Gylfi sagðist í erindi sínu alltaf hafa líkað við kenningu Schumpeter um skapandi eyðileggingu, sem gangi út á að til þess að skapa eitthvað nýtt þurfi að eyðileggja það sem var fyrir. Hrunið hafi svo sannarlega eyðilagt margt á Íslandi, sér í lagi næstum öllum fjármálastofnunum landsins og fyrirtækjasamstæðum sem reistar höfðu verið á vafasömum grunni í bólunni.

„Við höfum ekki endurbyggt neitt af þessu. Á yfirborðinu gætu nýju bankarnir litið óþægilega mikið út eins og forvera þeirra þegar þú skoðar innlenda starfsemi þeirra, en það er mikill munur á uppbyggingu þeirra, á lagaumhverfinu og á þeim eftirlitsskyldum sem á þeim hvíla,“ sagði Gylfi.

Ræða Gylfa í heild (á ensku).