Gylfi Sigfússon, forstjóri Eimskips, segir í samtali við Morgunblaðið að það komi til greina að fyrirtækið rifti samningi sínum við kínversku skipasmíðastöðina sem samið hafði verið við um smíði á gámaskipi fyrir félagið. Það hafi komið fram á fjárfestingakynningum og uppgjörsfundum undanfarna mánuði að tafir séu á smíði skipsins.

„Það gengur ekki nógu vel í Kína um þessar mundir í skipasmíðaiðnaðinum og ef niðurstaða okkar verður sú að við treystum þeim ekki til þess að efna samninginn göngum við bara út úr honum frekar en að eiga yfir höfði okkar frekari seinkanir, en þær eru nú þegar orðnar á annað ár,“ segir Gylfi við Morgunblaðið.

Hann segir að 28. ágúst megi Eimskip formlega segja samningnum upp og fyrirtækið sé með ábyrgð sem það keypti frá kínverskum alþjóðabanka. Því muni fyrirtækið fá endurgreidda þá fjármuni sem það hefur þegar greitt verði samningum rift.