Gylfi Zöega, prófessor í hagfræði og nefndarmaður í peningastefnunefnd Seðlabankans varar verkalýðshreyfinguna við að krefjast verulegra launahækkana til að bæta upp fyrir innfluttra verðbólgu í grein í Vísbendingu sem kom út í dag. Það sé ekki ósvipað og að pissa í skóinn sinn.

„Það er ekki raunhæft að verja kaupmátt fyrir hækkun á innflutningsverði. Ef framleiðsla verður dýrari í heiminum þá er það staðreynd sem ekki verður umflúin að lífskjör versna. Það er sömuleiðis eins og að pissa í skóinn sinn að hækka laun vegna þess að innlent verðlag hafi hækkað sem síðan leiðir til frekari launa- og verðhækkana,“ segir Gylfi í greininni.

Íslendingar þekki verðbólguspíralinn sem getur myndast með víxlverkun launahækkana og verðhækkana of vel frá gamalli tíð. „Forystumenn launþega hafa látið hafa eftir sér að verðhækkanir muni hafa áhrif á kaupkröfur og forystumenn atvinnurekenda munu væntanlega segja að launahækkanir hafi áhrif á verðbólgu. Þetta er því skólabókardæmi um það hvernig verðbólga getur magnast og orðið viðvarandi eins og gerðist á áttunda og níunda áratug síðustu aldar, tímabil sem margir muna nú orðið ekki eftir.“

Óttast þenslu á næsta ári

Blikur séu á lofti þegar hagkerfið er að taka við sér á ný eftir COVID kreppuna. „Vaxandi eftirspurn innan lands og innlend verðbólga fer saman við hækkandi verðlag í helstu viðskiptalöndum. Á komandi ári verða kjarasamningar lausir og er þá hætta á ferðum þegar saman fer spenna á vinnumarkaði, miklar launahækkanir síðustu missera, innlend verðbólga og mögulega einnig innflutt verðbólga.“

Gylfi óttast stöðuna ef verkalýðshreyfingin ætli að gera ítrustu kröfur um frekari launahækkanir í kjaraviðræðum á næsta ári á sama tíma og hætta sé á innfluttri verðbólgu og vextir séu á uppleið.

Laun hækkað mikið og munu hækka meira

Í kjarasamningunum árið 2019 hafi verið gengið til samninga sem hafi talist vera „hófsamir“ en samhliða því gerði ríkisstjórnin ýmsar ráðstafanir, t.d. í skattamálum til að liðka fyrir samningunum. „Önnur mynd kemur í ljós þegar litið er yfir launaþróun síðustu tveggja ára en laun hafa hækkað mjög mikið,“ segir Gylfi.

Laun innan ASÍ hafa hækkað um tæplega 30% á frá mars 2019 til júní 2021 samkvæmt samantekt Gylfa, laun innan BSRB um 27,1%, laun BHM um 18,8% og laun hjá Kennarasambandi Íslands um 15,9%. Þá sé von á frekari launahækkunum á næsta ári þar á meðal vegna ákvæðis sem tengir launahækkun við hagvöxt. Hagvöxtur áranna 2021 og 2022 bætist ofan á aðrar hækkanir sem stafi fyrst og fremst af miklum samdrætti á farsóttarárinu 2020. Þannig leiði farsóttin af sér launahækkanir óháð afkomu fyrirtækja og framleiðni vinnuafls.

Umbótamál mæti afgangi vegna þrefs um laun sem litlu skili

Ólíklegt sé að það takist að bæta lífskjör að ráði með verulegum launahækkunum til viðbótar en skoða ætti aðra þætti á borð við langan vinnudag Íslendinga, umbætur á húsnæðismarkaði og í menntamálum. „Fáar ef nokkrar þjóðir hafa það betra en Íslendingar mælt í peningum og neyslu. Lífsgæði gætu samt verið betri ef umbætur væru gerðar á húsnæðismarkaði, fólk gæti (og vildi) samræma vinnu og einkalíf betur og áhersla væri lögð á að bæta menntakerfið. Hættan er sú á komandi ári að ekki verði tekið á þessum sem öðrum þjóðþrifamálum en tímanum varið í karp þar sem skammtímahagsmunir ráða för og væntingar um frekari launahækkanir eru óraunhæfar.“.