Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ lýsir furðu sinni yfir ummælum framkvæmdastjóra SA, Þorsteins Víglundssonar, í Morgunblaðinu þess efnis að það fyrirtækin í landinu skili ekki styrkingu krónunnar til neytenda vegna þess að þau geri ráð fyrir því að þetta sé tímabundin styrking og að framundan sé frekari veiking krónunnar. Kemur þetta fram á vefsíðu ASÍ .

„Sé þetta rétt er nokkuð ljóst að hér verður ekki sest að neinum sáttaviðræðum á næstu mánuðum og misserum heldur sé verkalýðshreyfingin sett í þá stöðu að þvinga fram eðlilegar kjarabætur til að bæta launafólki upp kostnaðinn háu verðlagi og vöxtum. Atvinnurekendur verða að gera sér grein fyrir því, að nú reynir á trúverðuleika þeirra gagnvart neytendum og launafólki því afar mikilvægt sé að svigrúm til verðlækkana skili sér jafnharðan í lækkuðu verðlagi ef hér á að takast að forða slysi“, segir Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ.

Gagnrýni Gylfa er svarað á vefsíðu SA . „Virðist forseti ASÍ lesa úr þeim ummælum þá skoðun SA að fyrirtæki eigi ekki að skila styrkingu á gengi krónunnar út í verðlag. Það er fjarri sanni. Í því samhengi er rétt að benda á að verðbólguhraði hefur minnkað umtalsvert á undanförnum mánuðum samhliða styrkingu krónunnar. Afar mikil fylgni er á milli verðlagsþróunar og breytinga á gengi krónunnar og á það ekkert síður við nú.“

Þar er bent á að frá byrjun september í fyrra fram til loka febrúar í ár hafi gengi krónunnar veikst um 13% sem hafi leitt til umtalsverðrar verðbólgu. „Svipaða þróun mátti einnig sjá veturinn 2011 til 2012 þar sem krónan veiktist talsvert og verðbólga fylgdi í kjölfarið. Með styrkingu yfir sumarmánuðina 2012 dró hins vegar verulega úr verðbólgu og mældist raunar verðhjöðnun tvo mánuði í röð, í júlí og ágúst í fyrra. Verðbólgu skotið nú varð minna en fyrir ári síðan og fátt bendir til annars en að það sé að ganga til baka með sama hætti og varð á síðasta ári. Fyrirtækin eru því að skila gengisstyrkingu út í verðlagið og allar líkur á að við sjáum hér mjög lágar verðbólgutölur í sumar haldist gengið stöðugt.“