Gylfi Magnússon sem starfar sem viðskiptaráðherra utan þings segir að ekki sé búið að taka endanlega ákvörðun um skiptingu ráðuneyta og hvernig þau muni líta út. Honum hafi því ekki verið boðinn ráðherrastóllinn áfram. „Ég er ekki með neitt slíkt starfstilboð í vasanum," segir hann í samtali við Viðskiptablaðið.

Spurður hvort hann myndi taka slíku tilboði svarar hann því til að hann ætli ekki að afþakka neitt fyrirfram. „Komi ég að gagni í slíku starfi er erfitt að skorast undan því en ég hef ekkert sérstaklega sóst eftir ráðherrastól."

Þegar Gylfi varð utanþingsráðherra í minnihlutastjórn Samfylkingar og VG í byrjun febrúar fór hann í launaleyst leyfi sem dósent í hagfræði við Háskóla Íslands. „Ég var ákaflega ánægður í því starfi og yrði sáttur sáttur við að fara þangað aftur fyrr en síðar," segir hann.

Þegar hann er spurður hvort ráðherradómurinn hafi verið í samræmi við  væntingar svarar hann: „Ég datt inn í þetta með svo skömmum fyrirvara að ég náði ekki að mynda mér neinar væntingar." Óneitanlega sé starfið þó sérstakt og krefjandi - ekki síst í því árferði sem nú ríkir.

„Ég get ekki sagt að það sé beinlínis skemmtilegt en mjög áhugavert verkefni," segir hann og bætir því við að hann sé þó alls ekki að kvarta. Þetta sé bara svona. Það  þurfi að vinna ýmis verk.

Samfylkingin og VG hafa frá kosningum verið í stjórnarmyndunarviðræðum og sagði Jóhanna Sigurðardóttir, formaður Samfylkingarinnar, í samtali við Viðskiptablaðið í gær að hún vonaðist til að ný ríkisstjórn gæti litið dagsins ljós um helgina.