Fjármálafyrirtæki eiga ekki að geta aflað fjár í trausti þess að þau séu svo stór og mikilvæg að hið opinbera hljóti að koma þeim til bjargar lendi þau í vandræðum. Það er ekki og má ekki vera hlutverk hins opinbera að taka á sig tjón til að bjarga lánveitendum eða eigendum fjármálafyrirtækja sem lenda í vandræðum.

Þetta sagði Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra á ársfundi Seðlabanka Íslands fyrir stundu.

Gylfi sagði að ríkið hefði hlutverki að gegna við að lágmarka tjón allra en það ætti ekki að taka það á sig né setja á skattgreiðendur.

„Þá verður ríkið vitaskuld að grípa inn í, sé þess þörf, til að tryggja grunnþjónustu bankakerfisins, svo sem greiðslumiðlun og innstæðukerfi, líkt og gert var hérlendis fyrir tæpu einu og hálfu ári. Bresti slík þjónusta þá verður hagkerfið fyrirsjáanlega nánast óstarfhæft,“ sagði Gylfi í ræðu sinni.

Þá sagði Gylfi að hugmyndir sem komið hefðu fram um að takmarka og skipta starfsleyfi fjármálafyrirtækja þannig að þau sem sinna grunnþjónustu og teljast kerfislega mikilvæg hafi ekki heimild til að sinna áhættusamri starfsemi eða fjárfesta í áhættusömum eignum væru  skoðunar verðar.

„Með því væri í reynd nánast ákveðið fyrirfram hvaða fjármálastarfsemi hið opinbera myndi koma til bjargar á ögurstundu,“ sagði Gylfi.

„Annar möguleiki er að ákveða fyrirfram hvaða afmörkuðu þáttum í starfsemi mikilvægra fjármálafyrirtækja ætlunin væri að bjarga í fjármálakreppu. Hvort heldur ákveðið væri að bjarga fyrirtækjum í heild eða að hluta myndi ríkið ekki taka á sig tap eigenda viðkomandi fyrirtækja.“

Sjá ræðu Gylfa í heild sinni .