Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra segir brýnt að flýta tiltekt í öllu kerfinu.

„Það er mjög óþægilegt að vera með mörg fyrirtæki sem eru nánast lifandi lík, þ.e. ef þau væru gerð upp, væru þau gjaldþrota, þótt þau séu með rekstur sem er ekki fráleitt að geti staðið undir sér," segir hann í samtali við Viðskiptablaðið í dag.

Hann segir að greiða þurfi úr þeim flækjum sem mynduðust við hrun gamla fjármálakerfisins.

„Það þarf [...] að greiða úr þessu og gera mjög hratt þannig að eftir standi lífvænleg fyrirtæki sem eru með heilbrigðan efnahagsreikning. Þegar því er lokið er ekkert því til fyrirstöðu að byggja hér mjög hratt upp öflugt atvinnulíf. Að vísu ráðum við engu um alþjóðlega efnahagsástandið. Ef það versnar mjög mikið mun það seinka uppbyggingunni hér."

Hann tilgreinir ekki hvernig hann hyggist greiða úr þessum flækjum en segir að endurreisn bankakerfisins seinki frá því sem fyrr var áætlað. „[E]ndurreisn bankakerfisins fer fram með þeim hætti sem ráð var fyrir gert, þó að ferlinu muni seinka eitthvað."

Gylfi segir aðspurður í viðtalinu að hann hafi ekki komið að samningu málefnaskrár nýrrar ríkisstjórnar.

„Nei, ég kom ekki að samningnum en áður en ég tók að mér starfið fór ég fram á að fá að sjá sáttmálann, hvort það væri eitthvað í honum sem ég gæti ekki sætt mig við. Það var ekki svo ég tók starfinu. Þetta var ekki sáttmáli sem ég samdi heldur sáttmáli sem ég gat sætt mig við."