Gylfi Magnússon, prófessor og forseti Viðskiptafræðideild HÍ, var kjörinn stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur á framhaldsaðalfundi félagsins í dag. Hann tekur við stöðunni af Brynhildi Davíðsdóttur, sem baðst undan endurkjöri. Þau hafa bæði setið sem aðalmenn í stjórn frá aðalfundi sumarið 2011.

Sveitarstjórnir sveitarfélaganna sem eiga fyrirtækið kjósa stjórnarfólkið, það er borgarstjórn Reykjavíkur, bæjarstjórn Akraness og sveitarstjórn Borgarbyggðar.

Stjórn Orkuveitunnar skipa nú:

  • Gylfi Magnússon, prófessor og formaður stjórnar
  • Vala Valtýsdóttir, lögmaður og varaformaður stjórnar
  • Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi
  • Skúli Helgason, borgarfulltrúi
  • Valgarður L. Jónsson, formaður bæjarstjórnar Akraness
  • Þórður Gunnarsson, auðlindahagfræðingur
  • Guðveig Lind Eyglóardóttir, forseti sveitarstjórnar Borgarbyggðar er áheyrnarfulltrúi

Ræddi um málefni Ljósleiðarans í gær

Gylfi ræddi við fréttastofu RÚV fyrir tíufréttirnar í gær vegna 3 milljarða króna kaupa Ljósleiðarans, dótturfélags Orkuveitunnar, á stofnneti Sýnar, en kaupsamningurinn var undirritaður fyrr í vikunni. Í tilkynningu Ljósleiðarans sagði að viðskiptin ættu að auka fjarskiptaöryggi í landinu og styrkja samkeppni á fjarskiptamarkaði.

„Þetta ætti að tryggja að því marki sem það er hægt að það verði tvö mjög öflug innviðafyrirtæki sem bjóða þjónustu, það er að segja Ljósleiðarinn annars vegar og Míla hins vegar,“ sagði Gylfi.

Hann bætti við að verið sé að skoða sölu á hlutum í Ljósleiðaranum strax á næsta ári og það gæti reynst OR drjúg tekjulind. „Ef það verður þá munu aðrir aðilar fjármagna eigið fé Ljósleiðarans að einhverjum hluta.“