„Mér fannst þjóðmálaumræðan farin út á svolítið skrýtnar brautir og vildi koma mínum sjónarmiðum að,“ segir Gylfi Magnússon, dósent og viðskiptafræðideild Háskóla Íslands og fyrrverandi efnahags- og viðskiptaráðherra. Á laugardag birti Fréttablaðið grein hans um skuldir heimilanna, vexti og verðtryggingu. Gylfi segir þær lausnir sem nefndar hafa verið og koma eigi skuldsettum heimilum til hjálpar að uppstöðu mjög sérstaka blöndu af misskilningi, áróðri og óskhyggju.

Gylfi segir enga þörf fyrir leiðréttingu lána vegna verðbólguskotsins. Það hafi hvorki verið sérstaklega mikið né óvenjulegt á íslenskan mælikvarða. Engin ástæða sé heldur til leiðréttingar lána vegna þess að vísitalan sé rangt reiknuð. Hún sé það ekki heldur mæli eins vel og hægt er með góðu móti rýrnun kaupmáttar krónunnar ár frá ári, áratugum saman.

Töfralausnir eru ekki til

„Hluti af umræðunni hefur snúist um einhverjar töfralausnir sem fela ýmist í sér að búa til peninga úr engu, munu koma niður á einhverjum sem tekur ekki eftir því eða getur ekki borið hönd fyrir höfuð sér. Það verður að leita raunhæfra og sanngjarnra lausna,“ segir Gylfi og bendir á að öðru fremur hafi ungt fólk sem keypti sína fyrstu íbúð þegar fasteignaverð var hvað hæst hafi orðið fyrir mesta tilfinnanlega tjóninu. Því verði að hjálpa.

„Ég held að það sé eðlilegt í ljósi þess hvernig byrðum og tjóni er skipt í samfélaginu að þau séu aðstoðuð sérstaklega í gegnum skatta- og bótakerfið. Það er ekki hægt að gera fjármagn upptækt hér og hvar til þess að hjálpa einhverjum eða prenta peninga. Það eina í stöðunni er að færa byrðar af einum yfir á annan.“

Rangur sökudólgur

Gylfi bendir jafnframt á að í umfjöllun um skuldsett heimili hafi um of verið einblínt á skuldir og krónutölu þeirra. Það gefi hins vegar ekki rétta mynd af þróun mála. Hærri skuldir endurspegli hrun kaupmáttar krónunnar, þ.e.a.s. verðbólguna.

„Fólk er að glíma við sama vanda bæði vestanhafs og austan og hér. En þar er hvorki verðtrygging né verðbólga svo heitið geti. Í öðrum löndum býr fólk sem keypti húsnæði þegar verðið var hvað hæst og er í mörgum tilvikum í yfirveðsettu húsnæði í dag. Það er vegna þess að fasteignaverð hefur lækkað. En þegar krónan fellur á sama tíma og fasteignaverð stendur í stað þá finnst fólki eins og lánahækkunin sé vandamálið. En það er ekki svo, vandamálið liggur í verðlækkun á fasteignum og kaupmáttarrýnun,“ segir Gylfi.

Grein Gylfa má lesa hér .