Ný ríkisstjórn Samfylkingar og VG stefnir að því að hefja aðildarviðræður við Evrópusambandið í sumar. Tillaga um slíkt verður lögð fyrir Alþingi.

Jóhanna Sigurðardóttir, formaður Samfylkingarinnar, og Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, greindu frá þessu á blaðamannafundi sem nú stendur yfir í Norræna húsinu.

Jóhanna greindi þar m.a. frá því að Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra myndi verða yfir nýju efnahagsráðuneyti. Seðlabankinn og Hagstofan munu flytjast undir það ráðuneyti strax sem og ýmsir efnahagsþættir úr forsætisráðuneytinu og fjármálaráðuneytinu.

"Við teljum það mikilvægt atriði til að styðja við stöðugleikann," sagði hún.

Umsókn um aðild verði send í júlí

Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, sagði að niðurstaðan um ESB væri málamiðlun sem væri mörgum innan VG mjög erfið. VG væri áfram á móti aðild að ESB. "Þegar til þings kemur er enginn bundinn af neinu nema samvisku sinni," sagði hann.

Jóhanna sagði að þinginu myndi ekki ljúka í suma fyrr en niðurstaða fengist í þetta mál. Stefnt væri að því að senda inn umsókn í júlí.