*

laugardagur, 18. september 2021
Innlent 8. apríl 2021 15:45

Gylfi með öfugt 90/10 hlutfall

Þrátt fyrir að efnahagsástandið lendi verst á ferðaþjónustu eru hlutföll Gylfa Zoëga „fjarri því að lýsa stöðunni,“ segir Konráð.

Ritstjórn
Konráð S. Guðjónsson
Eyþór Árnason

Konráð S. Guðjónsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands, gagnrýnir ummæli Gylfa Zoëga um góða stöðu 90% hagkerfisins og segir þau í besta falli frjálsleg og í versta falli sé „alvarlega villandi að einfalda stöðu hagkerfisins þannig að svo virðist sem allt sé hér í himnalagi, fyrir utan ferðaþjónustu“. Þetta skrifar Konráð í aðsendri grein á vef Vísis.

„Stóra myndin er sú að 90 prósent af hagkerfinu eru í lagi og kaupmáttur hefur aldrei verið meiri,“ sagði Gylfi í Kastljósinu þann 30. mars síðastliðinn. „Ég hef alltaf sagt, verndum 90 prósent hagkerfið því það er svo hrikalegur skaði sem verður af því að hér sé farsótt innanlands, efnahagslegur skaði af henni er miklu meiri. Við björgum ekki 10 prósent hagkerfinu með því að hleypa pestinni inn í landið. Það er bara einhver hilling,“ sagði Gylfi um tilslakanir á landamærunum.  

Konráð bendir á að við lok síðasta árs hafði störfum fækkaði milli ára í 22 af 25 atvinnugreinum. Aðeins hafi verið fjölgun hjá hinu opinbera, í veitustarfsemi sem er að nær öllu leyti í eigu hins opinbera og í námugreftri og vinnslu hráefna úr jörðu sem er smávægileg grein hér á landi með 160 störfum. 

Að sama skapi dróst atvinnuvegafjárfesting saman í 40 af 46 atvinnugreinum (breiðari flokkun Hagstofunnar en að framan) á síðasta ári. Heilt yfir dróst atvinnuvegafjárfesting saman um 9% á síðasta ári og frá árinu 2017 nemur samdrátturinn 28%. „Ekki fæst séð að þetta geti verið staðan þar sem 90% af hagkerfi er í lagi, hvað þá í góðæri.“

Í þriðja lagi hafi verðmætasköpun í 45 af 58 atvinnugreinum (enn breiðari flokkun) minnkað árið 2020. Að teknu tilliti til stærðar greinanna, megi því segja að 73% hagkerfisins hafi dregist saman. Séu greinar hins opinbera dregnar frá var samdrátturinn í hagkerfinu 91%.  

Hlutföll Gylfa „fjarri því að lýsa stöðunni“

Konráð tekur undir að stærstur hluti landsmanna finni lítið fyrir kreppunni í daglegu lífi, m.a. vegna stórtækra aðgerða stjórnvalda auk þess sem laun þeirra sem hafa vinnu hækkuðu um 10% milli ára í janúar. Einnig skuli taka fram að samdrátturinn hafi verið 6% eða minni í um helmingi atvinnugreina.

„Með framangreindar tölur í huga er þó ekki að sjá að 90% af hagkerfinu sé í lagi heldur að meirihluti hagkerfisins hafi átt magurra ár heldur en 2019, sem þó var nokkuð þungt í skugga falls WOW air. Út frá því er nærtækara er að segja að 10% af hagkerfinu sé í lagi, sérstaklega ef hið opinbera er sett út fyrir sviga,“ skrifar Konráð. Að þeim sökum eru hlutföll Gylfa „fjarri því að lýsa stöðunni“. 

„Ef við horfumst ekki í augu við þann veruleika og allar þessar atvinnugreinar ná ekki vopnum sínum á ný er óumflýjanlegt að kreppan muni bitna illa á okkur öllum en ekki sumum,“ segir Konráð að lokum.