*

sunnudagur, 13. júní 2021
Innlent 21. maí 2018 22:55

Gylfi með réttarstöðu sakbornings

Forstjóri og framkvæmdastjóri hjá Eimskipum hafa fengið réttarstöðu sakbornings vegna meintra samkeppnislagabrota.

Ritstjórn
Gylfi Sigfússon, forstjóri Eimskipa.
Haraldur Guðjónsson

Gylfi Sigfússon, forstjóri Eimskips, og Bragi Þór Marinósson, framkvæmdastjóri alþjóðasviðs Eimskips, voru kallaðir til skýrslutöku hjá embætti héraðssaksóknara þann 11. maí og fengu báðir stöðu sakbornings þann sama dag. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Eimskipum.

Skýrslutakan snéri að hvort ólögmætt samráð milli Eimskipa og Samskipa hafa átt sér stað um verð eða skiptingu markaða.

Meint samkeppnislagabrot Eimskipa og Samskipa hafa verið til rannsóknar hjá yfirvöldum um nokkurra ára skeið. Þann 10. september 2013 framkvæmdi Samkeppniseftirlitið húsleit á starfsstöðvum Samskipa og Eimskips.  Í tilkynningunni frá Eimskipum kemur fram að frá því að húsleitin fór fram hafi Eimskip ítrekað óskað eftir upplýsingum um grundvöll málsins, með takmörkuðum árangri.

Gylfi og Bragi Þór hafa óskað eftir afriti gagna vegna málsins en ekki borist. Þá hafi félagið sjálft ekki fengið gögn í hendur vegna málsins.

„Miðað við þær takmörkuðu upplýsingar sem félaginu eru kunnar um sakarefni málsins, hafnar félagið sem fyrr ásökunum um að hafa gerst brotlegt gegn ákvæðum samkeppnislaga. Það er von félagsins að rannsókninni fari senn að ljúka og fagnar því, nú næstum fimm árum síðar, að loksins virðist sem skriður sé kominn á rannsókn málsins,” segir í tilkynningu frá Eimskipum.