„Við lítum svo á að forsendur kjarasamninganna séu brostnar, þó að allar líkur séu á að hin almenna kaupmáttarviðmiðun standist. Verðbólgu- og gengisforsendur samninganna hafa hins vegar brostið. Í því felst að fyrirtæki í landinu og sveitarfélög og ríkið hafa leyst úr sínum vanda með því að hækka verð á vörum og þjónustu umfram það sem við gerðum ráð fyrir,“ segir Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, í viðtali við mbl.is í dag.

Gylfi segir formenn aðildarfélaga ASÍ samtaka um þá ákvörðun að krefjast meiri launahækkana þann 1. febrúar en samið var um í kjarasamningum 5. maí í fyrrasumar. Þetta er meðal annars athyglisvert í ljósi orða Seðlabankastjóra á kynningarfundi um stýrivaxtaákvörðun í gær þegar hann nefndi launaákvörðun kjarasamninga sem lykilþátt við ákvörðun stýrivaxta í febrúar næstkomandi.

Gylfi segist ekkert eiga vantalað við yfirvöld. „Við munum við endurskoðun samninganna ekki freista þess að ræða við ríkisstjórnina. Við metum það enda svo að það þjóni engum tilgangi,“ segir Gylfi.