Sá gríðarlegi halli sem er á opinbera lífeyriskerfinu stefnir afkomu ríkis og sveitarfélaga í verulega hættu og gæti haft mikil áhrif á velferðarkerfið, að sögn Gylfa Arnbjörnssonar, forseta ASÍ. Gylfi var einn frummælenda á fundi Öldrunarráðs Íslands, Landsamtaka lífeyrissjóða, ASÍ og SA um framtíð lífeyrissjóðakerfisins. Sagði hann að halli opinberu sjóðanna hafi aukist um 100 milljarða frá 2007 og sé nú orðinn tæplega 550 milljarðar króna.

Segir hann að óbreyttu þurfi 28-30 milljarða króna á ári til að standa við skuldbindingar opinberu sjóðanna, en gert er ráð fyrir 10 milljörðum á fjárlögum. Segir hann að hjá almennu launafólki sé mikil og vaxandi krafa um jöfnun lífeyrisréttinda milli þeirra sem eru í almenna kerfinu annars vegar og í opinbera kerfinu hins vegar.

Gylfi var einnig harðorður þegar hann vék að hugmyndum stjórnvalda um að „ráðstafa eignum lífeyrissjóðanna í góð mál“. Sagði hann að sú ákvörðun að skattleggja lífeyrissjóðiina til að hækka almennar vaxtabætur hafi einkum komið þeim til góða sem ekki voru í alvarlegum vandamálum. Sagði hann að sjóðsfélagar hafi verið þolendur íp efnahagshruninu, en ekki gerendur, og því óþolandi að ríkisstjórnin jafnsetji lífeyrissjóði við stöðu bankanna og útrásarvíkinga. Gagnrýndi hann sérstaklega þau ummæli Steingríms J. Sigfússonar, efnahags- og viðskiptaráðherra, að lífeyrissjóðirnir þyrftu að horfa á heildarmyndina og þar með vikja til hliðar lögum og stjórnarskrá.

ASÍ er, að sögn Gylfa, að undirbúa málaferli gegn ríkinu um lögmæti þess að leggja fjársýsluskatt á lífeyrissjóðina. Sagði hann augljóst að slíkur skattur leggist aðeins á launafólk á almennum vinnnumarkaði, þ.e. þeirra sem ekki njóti bakábyrgðar ríkissjóðs.