„Þetta mun vafalítið breyta miklu fyrir félagið. En það er fyrst og fremst gaman að fyrrverandi leikmaður Breiðablik skuli hafa náð þetta langt," segir Einar Kristján Jónsson, formaður knattspyrnudeildar Breiðabliks, um félagsskipti Gylfa Þórs Sigurðssonar, landsliðsmanns í knattspyrnu, frá Reading á Englandi til Hoffenheim í Þýskalandi.

Breiðablik fær umtalsverðan hluta í sinn hlut af kaupverðinu en mest fer þó til Reading.

Um fimm prósent af kaupverðinu skiptist milli, Breiðabliks og FH, þar sem Gylfi lék áður en hann fór í Breiðablik. Um 10% af 95% kaupverðsins fer hins vegar í hlut Breiðabliks, í samræmi við samningsákvæði þar um.

Einar Kristján sagði í samtali við Viðskiptablaðið að ekki væri ljóst enn hversu há fjárhæð kæmi í hlut Breiðabliks þar sem staðfestar upplýsingar um kaupverð hefðu ekki borist til Breiðabliks enn.

„Þetta hefur sinn gang og ég veit ekki nákvæmlega hvenær þessir hlutir komast á hreint. Líklega verður það þó innan tíðar," segir Einar Kristján.

Samkvæmt enskum fjölmiðlum í dag er kaupverðið á Gylfa Þór talið vera um 6 milljónir punda eða sem nemur rúmlega 1,1 milljarði króna. Gylfi Þór er þar með kominn í hóp íslenskra knattspyrnumanna sem keyptir hafa verið fyrir mesta fjármuni í leikmannaviðskiptum í fótbolta. Dýrustu kaupin til þessa eru kaup Barcelona á Eiði Smára Guðjohnsen frá Chelsea, árið 2006, fyrir um átta milljónir punda.