"Sjö ára gamall smíðaði ég, ásamt bróður mínum Árna, gelluvagn og hóf að vinna gellur og selja í hús. Gelluvagninn var kassabíll sem var smíðaður úr hjólum af Silvercross barnavagni sem ég hafði sjálfur verið í nokkrum árum áður og góðu timbri úr næstu húsgrunnum ofan við Kirkjubæjarbrautina í Eyjum."

Þetta segir Gylfi Sigfússon, forstjóri Eimskips, í samtali við Viðskiptablaðið aðspurður um sína fyrstu vinnu.

„Gellukassinn á bílnum var Tréeplakassi sem við tókum ofan af háalofti, léttur með þunnum tréfjölum. Lokasmíðin var svo fólgin í að afhausa nagla, og negla honum öfugum ofan í tréstöng sem fest var við kassann. Þannig myndaðist stingur. Þorskhausunum varsvo stungið upp á stinginn og gellan skorin af og sett í kassann. Síðan drógum við vagninn, eða ég stýrði og bróðir minn ýtti, að næstu heimilum, bönkuðum uppá hjá húsmæðrunum og buðum nýjar ferskar gellur til sölu. 1 krónu á stykkið og þar sem við vorum áskrifendur af Morgunblaðinu, pökkuðum við gellunum í blaðið. Í einu tilfelli man ég að ein húsfrúin, sem var gift kommúnista, hafði meiri áhuga á að kaupa staka opnu i málgagninu fyrir 10 aura stykkið."