„Þetta er góðs viti,“ segir Gylfi Sigfússon, forstjóri Eimskips. Fram kom í máli Gylfa á Kauphallardegi Arion banka í síðustu viku að gámaflutningar á vegum félagsins hafi aukist um 9% á fyrsta ársfjórðungi og í apríl var metvika eftir hrun.

Aukningin liggur jafnt í inn- og útflutningi og er smá hreyfing í öllum flokkum.

Gylfi kom ekkert inn á afkomu félagsins. Uppgjör Eimskips fyrir þriðja ársfjórðung verður birt eftir hálfan mánuð. Þá var greint frá því í gærkvöldi að stigið hafi verið skref í endurkomu skipaflutningafélagsins á hlutabréfamarkað með ráðningu Íslandsbanka og Straums, sem munu sjá um undirbúning fyrir Kauphallarskráningu á fjórða ársfjórðungi. Þar var sömuleiðis haft eftir Gylfa, að rekstrarumhverfið hafi verið erfitt.

Hann vildi ekkert láta hafa eftir sér um flutningatölurnar í samtali við Viðskiptablaðið í gær.

Langt í land hjá Eimskipi

Og aftur að Kauphallardeginum. Þar rifjaði Gylfi upp að þegar mest lét í uppsveiflunni hafi 150 þúsund gámaeiningar farið um Reykjavíkurhöfn árið 2007. Í kjölfarið hafi verið vangaveltur uppi um það hvort höfnin réði við álagið. Til tals hafi komið að annað hvort stækka höfnina eða flytja gámaflutningana til Grundartanga. En svo hafi hrunið skollið á með tilheyrandi samdrætti í gámaflutningum. Gylfi var kallaður til þegar reksturinn var kominn í vandræði og kröfuhafar að taka það yfir.

„Hérna fóru um 100 þúsund gámaeiningar í gegnum höfnina í fyrra. Nú erum við að keppa við sambærilegar flutningstölur og sáust hér síðast árið 1990,“ sagði Gylfi.

„Magnið er að aukast aftur en það er langt þar til við náum þeim hæðum sem þetta var í,“ sagði hann.