Rekstrarafkoma flutningastarfseminnar á fyrsta ársfjórðung er í samræmi við þær væntingar sem við höfðum um reksturinn að undanskyldri afkomu Containerships sem var lakari en reiknað var með.

Þetta segir Gylfi Sigfússon, forstjóri Hf.Eimskipafélags Íslands um uppgjör félagsins á fyrsta ársfjórðungi en tap félagsins á tímabilinu (nóv. `08 – jan. `09) nam 40,2 milljónum evra samanborið við tap upp á 38,9 milljóna evra tap á sama tíma á síðasta ári.

„Þessi ársfjórðungur var Eimskip mjög erfiður þar sem markaðsaðstæður voru félaginu erfiðar eins og öðrum fyrirtækjum í flutningastarfsemi,“ segir Gylfi í tilkynningunni.

Hann segir mikinn samdrátt hafa verið á þessum þremur mánuðum í innflutningi til Íslands auk þess sem erfiðleikar viðskiptavina félagsins við öflun gjaldeyris og óvissa á mörkuðum erlendis hafi sett mark sitt á afkomuna á fjórðungnum.

„Markmið stjórnenda Eimskip er að tryggja rekstrargrundvöll flutningastarfseminnar til framtíðar og leggja megináherslu á starfsemi sem tengist Norður Atlantshafi,“ segir Gylfi bætir við að unnið hafi verið markvisst að hagræðingu í rekstri félagsins með breytingum á skipaflota, siglingaleiðum, launakostnaði og öðrum rekstrarkostnaði sem hafi skilað sér að hluta til á fyrsta ársfjórðungi en muni skila sér að fullu á næstu mánuðum.

„Heildarafkoman er mjög slæm og vegur fjármagnskostnaður þar hæst í ljósi mikillar skuldsetningar,“ segir Gylfi.

„Fjárhagsleg endurskipulagning félagsins er enn i fullum gangi í samvinnu við helstu lánveitendur félagsins. Söluferli á kæligeymslustarfsemi í Norður Ameríku er að taka lengri tíma en áætlað var og hafa aðstæður á fjármálamörkuðum ekki hjálpað til. Markmið er að endurskipulagningu ljúki fyrir lok júní þannig að traustari stoðum megi skjóta undir Eimskipafélag Íslands svo að það megi áfram gegna mikilvægu hlutverki í flutningum til og frá Íslandi.“