Gylfi Sigfússon [ HFEIM ], forstjóri Eimskipafélagsins, benti á á afkomufundi félagsins í morgun að þrátt fyrir að félagið væri of skuldsett væri EBITDA félagsins 41 milljón evra. Líkt og sést á meðfylgjandi töflu er 52% vöxtur milli ára.

„Skuldastaða félagsins er erfið, fjármagnskostnaður hár og eiginfjárhlutfallið er óviðunnandi,“ sagði Gylfi. „Við höfum verið í nánum samskiptum við lánveitendur og skuldabréfaeigendur. Þeir hafa gefið okkur það svigrúm sem við þurfum og vinna með okkur í því að laga eiginfjárhlutfallið. Við höfum mætt mjög góðum skilningi,“ sagði hann.

Hann segir mikilvægt að eiginfjárhlutfalli fari í 25% úr 13,7% sem það var við lok þriðja fjórðungs. Því markmiði á að ná með eignasölu. Atlas Versacold er í sölumeðferð ásamt öðrum eignum félagsins sem ekki tengjast grunnrekstrinum. Ekki fæst uppgefið hverjar þær eru.

Tap tímabilsins var meira en meðalspá greiningardeildanna hljóðaði upp á en EBITDA hagnaður var þrátt fyrir það betri. Tap tímabilsins nam 20 milljónum evra en spáð var 17 milljóna tapi. EBITDA var 41 milljón evra á fjórðungnum en spáin hljóðaði upp á 37 milljónir evra.