„Þetta félag hefur ávallt skipað stóran sess í huga þjóðarinnar. Við þurfum að vernda þá arfleifð,“ sagði Gylfi Sigfússon, forstjóri Eimskips, þegar hann fagnaði endurkomu þess á hlutabréfamarkað. Hann minntist þess í morgun að félagið fagnar 100 ára afmæli í janúar á næsta ári. Þetta er annað skiptið sem félagið er skráð á markað á á tuttugu árum.

Gylfi fór yfir rekstur Eimskips í erindi sínu, sagði hann stöðugan og lagði áherslu á að mörg tækifæri á norðurslóðum sem vinna þurfi vel úr.

Þá sagði Gylfi skráninguna stóran og merkilegan dag í sögu Eimskips og ekki síður mikilvægan áfanga fyrir starfsfólk og stjórn félagsins sem síðastliðin fjögur ár hafi markvisst unnið að endurreisn þess. Þá sagði Gylfi gleðilegt að sjá dreifða eignaraðild að félaginu en hluthafar þess eru um 3.000 talsins.