Í viðtali við Gylfa Sigfússon, forstjóra Eimskips, í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins kemur fram að nokkur samdráttur hefur verið í flutningum til og frá landinu. Aðspurður segir Gylfi að samdrátturinn milli áranna 2009 og 2008 nemi um 28% og á síðasta ári var einnig stöðnun í flutningum.

„Við erum í raun komin aftur til ársins 1990 hvað flutningsmagn varðar,“ segir Gylfi.

Aðspurður um framhaldið og stöðu Eimskips segir Gylfi að reksturinn sé nú í jafnvægi eins og uppgjörstölur fyrstu níu mánuði síðasta árs gefi til kynna. Hann segir þó að ekki verði horft fram hjá því að utanaðkomandi þættir kunni að hafa áhrif á rekstur Eimskips. Þannig nefnir Gylfi að erfiðleikar viðskiptavina hafi vissulega áhrif á magn flutninga en einnig megi nefna gjaldeyrishöft og óstöðugt stjórnarfar sem valdi töluverðum vandræðum.

„Það skaðar okkur og fleiri hversu fáir erlendir aðilar bera traust til íslenskra stjórnvalda. Hér er enginn stöðugleiki eins og var áður,“ segir Gylfi.

„Núverandi aðstæður, t.d. töf á stóriðjuframkvæmdum, skaða okkur auðvitað líka. Við sjáum um að flytja vörur fyrir virkjanirnar og stóriðjufyrirtækin og á meðan þau eru ekki að stækka við sig eða framkvæma er minna fyrir okkur að flytja. Við gerðum ráð fyrir því í áætlun okkar fyrir árið 2010 að stóriðjuframkvæmdir myndu hefjast en svo er auðvitað ekki. Það var í raun engin aukning í flutningum á milli ára árið 2010. Vissulega féll á okkur erfið alþjóðleg fjármálakreppa en stjórnvöld gera illt verra með því að draga mál á langinn. Þessi verkefnastjórnun hjá stjórnvöldum er mjög ófagleg.“

Gylfi segir þó að eins og hjá flestum öðrum fyrirtækjum geti margir þættir haft áhrif á gang mála og enn sé lítið vitað um framhaldið á mörgum málum. Fyrir utan virkjanir og stóriðjuframkvæmdir megi nefna óvissu með fiskveiðikvótann, töf á enduruppbyggingu fyrirtækja og heimila, olíuverðsþróun, lausa kjarasamninga og margt fleira.

Nánar er rætt við Gylfa í ítarlegu viðtali í Viðskiptablaðinu. Þar fjallar Gylfi um bæði fjárhagslega og rekstrarlega endurskipulagningu félagsins og aðdraganda þess að félagið var endurreist á haustmánuðum 2009. Þá er jafnframt fjallað um nýlegt strand Goðafoss við Noreg.