Samhæfingarferli Versacold, Atlas og Eimskips í Bandaríkjunum og Kanada er nú lokið. Brent Sugden, forstjóri yfir kæli- og frystigeymslusviði Eimskips í Ameríku mun stýra allri starfsemi Eimskips, Atlas og Versacold í Bandaríkjunum og Kanada.

Í fréttatilkynningu frá Eimskip segir að Gylfi Sigfússon hafi verið ráðinn framkvæmdastjóri Eimskips og mun stýra þeim rekstri sem snýr að flutningum félagsins milli Bandaríkjanna, Kanada og Íslands ásamt öðrum flutningum þeim tengdum. Gylfi, sem verður undir stjórn Brents, tilheyrir nú stjórnendateymi Eimskips í Ameríku sem ber ábyrgð á rekstri Versacold, Atlas og Eimskips í Norður Ameríku.

Brent Sugden hefur undanfarin sex ár verið forstjóri Versacold og hefur áralanga reynslu af rekstri kæli- og frystigeymslna. Brendt hefur náð miklum árangri í Versacold og hefur verið farsæll stjórnandi í ört vaxandi fyrirtæki í hörðu samkeppnisumhverfi.

Eimskip í Ameríku rekur um 120 kæli- og frystigeymslur, þar starfa um 8.500 manns á vegum félagins og veltan nemur um 1.200 milljónum bandaríkjadala eða um 75 milljörðum króna. Að auki starfrækir Eimskip áætlunarsiglingar á austurströnd Bandaríkjanna og stefnir félagið að auka þjónustuframboð sitt til muna á þessu markaðssvæði.