Gylfi Sigfússon hefur verið ráðinn forstjóri Hf. Eimskipafélags Íslands.

Gylfi hefur sinnt ýmsum störfum innan Eimskips og tengdra félaga og hefur í 18 ár starfað hjá fyrirtækjum í flutningatengdum rekstri.

Stefán Ágúst Magnússon, sem hefur tímabundið gegnt stöðu forstjóra og áður stöðu aðstoðarforstjóra og framkvæmdastjóra fjármálasviðs, mun að eigin ósk láta af störfum hjá félaginu.

Þetta kemur fram í tilkynningu félagsins.

Þar kemur fram að Stefán mun á næstu tveimur til þremur mánuðum sinna stöðu aðstoðarforstjóra og ljúka ákveðnum verkefnum fyrir félagið.

„Við bjóðum Gylfa velkominn sem nýjan forstjóra Eimskips. Hann hefur víðtæka reynslu af stjórnunarstörfum fyrirtækja í flutningarekstri og hefur tekið virkan þátt í stefnumótun og vexti Eimskips í Bandaríkjunum og Kanada. Eimskip hefur vaxið mjög hratt á undanförnum árum og áherslur okkar á komandi misserum verða á að ná vel utan um rekstur samstæðunnar og fylgja eftir markmiðum okkar,“ segir Sindri Sindrason, stjórnarformaður Eimskips í tilkynningu frá félaginu.

„Ég vil einnig þakka Stefáni fyrir gott og fórnfúst starf við uppbyggingu Eimskips á undanförnum árum og mikilvægt framlag hans til félagsins.“

„Það er ánægjulegt að fá tækifæri til að taka við stöðu forstjóra Eimskips. Á þeim 18 árum sem ég hef unnið hjá Eimskip og tengdum félögum, tel ég mig hafa fengið góða innsýn inn í starfsemi félagsins og tækifæri þess til áframhaldandi vaxtar,“ segir Gylfi Sigfússon, nýráðinn forstjóri Eimskips í tilkynningunni.

Hann segir félagið hafa skapað sér sterka stöðu sem leiðandi alþjóðlegt flutningafélag og sem stærsta frysti- og kæligeymslu fyrirtæki í heimi.

„Á þeim grunni mun ég byggja og í samvinnu við góðan hóp starfsmanna,  verður kappkostað við að efla félagið enn frekar og leita sóknarfæra á mörkuðum okkar um allan heim,“ segir Gylfi.

Gylfi útskrifaðist frá Viðskiptadeild Háskóla Íslands árið 1990. Hann var framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Tollvörugeymslunnar (TVG) á árunum 1990-1996, var framkvæmdastjóri Ambrosio Shipping í Bandaríkjunum á árunum 1996-2000 og framkvæmdastjóri Eimskips Logistics í Bandaríkjunum á árunum 2000-2006.

Undanfarin tvö ár hefur Gylfi verið framkvæmdastjóri Eimskip Americas, sem nær yfir flutningastarfsemi Eimskips í Bandaríkjunum og Kanada. Hann hefur jafnframt setið í framkvæmdastjórn frysti- og kæligeymslufyrirtækis Eimskips, Versacold/Atlas, frá árinu 2007.