Nýjustu tölur Hagstofu Íslands um vinnumarkað sýna mjög greinilega að störfum hefur fækkað um 2.500 hér á landi á milli ára. Sé miðað við árstíðaleiðréttar tölur hafa ekki verið færri á vinnumarkaði árinu 2005.

Gylfi Arnbjörnsson, formaður ASÍ, fjallaði í upphafi þessarar viku einnig um tölurnar og skaut föstum skotum á ríkisstjórnina sem hafði áður haldið því fram að fækkun atvinnulausra væri merki um velgengni í hagkerfinu og fjölgun starfa.

Í grein á vef Pressunar, sem síðan birtist á vef ASÍ, segir Gylfi að langtíma leitni á vinnumarkaði bendi til þess að atvinnuástandið sé að versna fremur en að batna og gera megi ráð fyrir slæmu ástandi þegar líða fer á veturinn.

„Fjórir árgangar ungs fólks hafa komið inn á vinnumarkaðinn frá hruni með lítinn sem engan rétt til atvinnuleysisbóta og fjöldi einstaklinga sem bjó erlendis eða var heimavinnandi hefur farið inn á vinnumarkaðinn,“ segir Gylfi í grein sinni.

„Að sama skapi hefur fjöldi manns horfið af vinnumarkaði (atvinnuþátttaka hefur aldrei verið lægri) eða flust búferlum til útlanda til að sjá sér og sínum farborða. Samkvæmt þessum tölum er ljóst að störfum á Íslandi er ekki að fjölga né er að draga úr atvinnuleysi svo nokkru nemur. Það er því algerlega ótímabært að lýsa yfir einhverjum sigrum hvað þetta varðar.“

Þá segir Gylfi einnig vandséð hvernig hægt sé að líta á þessar tölur sem árangursríka efnahagsstjórn, sérstaklega þegar um sé að ræða ríkisstjórn sem kennir sig við jöfnuð og jafnrétti.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu og meðal annars farið yfir tölur Hagstofunnar og þær tölur sem Gylfi lagði fram í grein sinni. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.