Við afgreiðslu starfs- og fjárhagsáætlunar fyrir ASÍ í janúar var tekin ákvörðun um að fresta um óákveðin tíma ráðningu framkvæmdastjóra ASÍ vegna mikillar óvissu um tekjur sambandsins í ljósi fyrirsjáanlegs samdráttar í bæði fjölda félagsmanna og heildartekjum þeirra.

Þetta kemur fram á vef ASÍ í dag.

Þar kemur fram að Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, mun gegna hlutverki framkvæmdastjóra samhliða störfum sínum, en jafnframt hefur verið ákveðið að fela Eyrúnu Björk Valsdóttur, deildarstjóra Fræðsludeildar, að sinna starfsmannastjórn á skrifstofu sambandsins og Ólafi Darra Andrasyni, deildarstjóra Hagdeildar, að sinna fjármálastjórn.