*

mánudagur, 13. júlí 2020
Innlent 19. febrúar 2020 16:22

Gylfi Zoëga á móti vaxtalækkun

Einn nefndarmanna í peningastefnunefnd greiddi atkvæði gegn tillögu seðlabankastjóra um lækkun vaxta.

Ritstjórn
Gylfi Zoëga er prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands og einn nefndarmanna í peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands.
Haraldur Guðjónsson

Ekki voru allir nefndarmenn í peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands sammála tillögu Ásgeirs Jónssonar seðlabankastjóra og formanns nefndarinnar um að lækka vexti um 0,25 prósentustig á dögunum.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í byrjun mánaðarins lækkaði Seðlabankinn stýrivexti sína niður í 2,75% og hafa flestir bankarnir fylgt eftir með jafnmiklum eða minni lækkunum sinna vaxta.

En einn nefndarmannanna, Gylfi Zoëga prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands greiddi atkvæði gegn tillögunni um lækkun vaxta, að því er fram kemur i fundargerð nefndarinnar sem Seðlabankinn hefur nú birt.

Ásgeir Jónsson sjálfur, Rannveig Sigurðardóttir aðstoðarseðlabankastjóri og Katrín Ólafsdóttir greiddu hins vegar atkvæði með tillögunni og var hún því samþykkt.

Lækka þyrfti kostnað í gegnum atvinnuleysi í raunhagkerfinu

Helstu rök sem nefnd eru í fundargerðinni að komið hefðu fram gegn vaxtalækkun voru að þrátt fyrir að efnahagshorfur hefðu versnað væri innlent kostnaðarstig orðið hátt vegna mikilla launahækkana, sem hefðu veikt samkeppnisstöðu útflutningsatvinnugreina.

Þennan kostnaðarvanda þyrfti að laga í gegnum lækkun raungengis, þvi lækkun stýrivaxta myndi ekki leysa hann eitt og sér. Jafnframt væri ekki búið að ljúka samningum opinbera starfsmanna og órói á vinnumarkaði hefði aukist að undanförnu á sama tíma og spáð var að launakostnaður á framleidda einingu myndi hækka nokkuð umfram verðbólgumarkmið.

„Aðlögun þjóðarbúsins þyrfti því í auknum mæli að eiga sér stað í gegnum raunhagkerfið með lækkun kostnaðar og auknu atvinnuleysi,“ segir m.a. í fundargerðinni þar sem jafnframt var farið yfir rök með lækkun sem væru eins og áður segir versnandi efnahagshorfur og útlit fyrir minni verðbólgun en áður hafði verið gert ráð fyrir.

„Í ljósi þess að taumhald peningastefnunnar hefði aukist og fjármálaleg skilyrði fyrirtækja versnað væri rétt að draga úr peningalegu aðhaldi.“