Samkvæmt nýrri spá um kröfu íbúðabréfa mun krafa íbúðabréfa haldast há það sem eftir er ársins og vel fram á næsta ár en horfur til næstu mánaða eru ekki hliðhollar bréfunum, samkvæmt því sem segir í Morgunkorni Glitnis.

Að sögn Greiningar Glitnis má búast við að verðbólga milli mánaða á fyrstu mánuðum ársins verði lítil vegna útsöluáhrifa. Af þeim sökum ásamt óvissu í þá átt að stýrivextir gætu hækkað, verður krafa bréfanna hærri það sem eftir lifir þessa árs og vel fram á næsta ár. Krafa íbúðabréfa hefur hækkar síðustu daga og gerir Greining Glitnis ráð fyrir að hún muni haldast há út 1. ársfjórðung 2008. Í lok þessa árs spáir greiningardeildin að krafa íbúðabréfa verði 7,8% á HFF14 og 5,2% á HFF44 og á svipuðu róli í lok 1. ársfjórðungs næsta árs.

Lækkunarferli stýrivaxta Seðlabankans mun hefjast í júlí á næsta ári samkvæmt stýrivaxtaspá Glitnis og líklegt er að krafa íbúðabréfa verði því farin að lækka undir lok 2. ársfjórðungs í aðdraganda vaxtalækkunar bankans. Greining Glitnis reiknar með lítilsháttar lækkun kröfunnar á 2. fjórðungi, bæði vegna þess að stýrivaxtalækkun mun ekki koma til á fjórðungnum og eins þar sem óvissan er í þá átt að lækkunarferli stýrivaxta hefjist síðar í tíma. Á síðari helmingi ársins er svo ráð fyrir snarpri kröfulækkun samhliða því sem Seðlabankinn lækkar vexti. Spá um kröfu íbúðabréfa í lok ársins 2008 er nær óbreytt frá fyrri spá og verði 6,6% á HFF14 og 4,4% á HFF44.