Wayne Roone
Wayne Roone
© AFP (AFP)

Tekjur knattspyrnufélaga í ensku úrvaldsdeildinni komust yfir þriggja milljarða punda múrinn á tímabilinu 2013-2014, einungis fjórum árum eftir að tekjur þeirra námu tveimur milljörðum punda. Tekjur félaganna hafa einnig tvöfaldast á sjö árum, að því er fram kemur í skýrslu frá Deloitte. Sagt er frá þessu á vef BBC .

Á tímabilinu 2012-2013 námu tekjurnar 2,5 milljörðum punda. Talsverður munur var á tekjum milli félaga en Manchester United var með 363 milljónir punda í tekjur á meðan tekjur Wigan Athletic námu 58 milljónum punda. Meðallaun leikmanna voru 1,6 milljónir punda.

Helsta ástæða þessarar miklu tekjuaukningar síðustu ára er talin vera aukin barátta fyrirtækja fyrir sjónvarpsrétti. Mikil eftirspurn er eftir að sýna frá leikjum deildarinnar og skilar það sér í auknum sjónvarpstekjum félaga.

Í skýrslunni kemur einnig fram að enska úrvalsdeildin verði sífellt þekktari um allan heim. Orsök þess má að hluta rekja til aukins erlends eignarhalds á félögunum. Á tímabilinu 2012-2013 var helmingur félaga í eigu erlendra aðila, samanborið við einungis eitt félag tíu árum fyrr.