Fjarskipti, rekstrarfélag Vodafone á Íslandi, skilaði 210 milljóna króna hagnaði á öðrum ársfjórðungi þessa árs. Það sem helst litaði uppgjörið, sem að mestu leyti stóðst væntingar greiningaraðila, voru forstjóraskipti félagsins. Ómar Svavarsson hætti störfum í maí og Stefán Sigurðsson tók við. Flestir greiningaraðilar eru sammála um að forstjóraskiptin hafi ekki teljandi áhrif á mati þeirra á félaginu þó að það hafi komið á óvart að starfslokagreiðslur Ómars hafi verið greiddar út í einu lagi, með tilheyrandi afleiðingum á kostnaðarhlið félagsins en starfslokin kostuðu félagið 53 milljónir.

Almennt má telja að það sé meiri regluverksáhætta í fjarskiptabransanum heldur en í mörgum öðrum greinum að mati Jóhanns Viðars Ívarssonar hjá IFS greiningu. „Fjarskiptageirinn er háður svo miklu regluverki og þannig er eitt og annað í tekjumynduninni sem er að talsverðu leyti ákveðið af hinu opinbera eða háð afskiptum þess,“ segir Jóhann en því til stuðnings nefnir hann áhrif lækkunar á lúkningagjöldum á rekstur fyrirtækisins.

Eftir að tilskipun Evrópusambandsins um lækkun lúkningargjalda gekk í gildi var ákveðið að öll fjarskiptafyrirtæki ættu að greiða sama lúkningargjald um leið og gjöldin lækkuðu. Áður var fjarskiptafélögum mismunað eftir stærð, smærri fyrirtækjum til hagsbóta, og því kom þessi reglubreyting sér vel fyrir stærri fyrirtækin á markaðnum, Vodafone og Símann.

Nánar er fjallað um málið í Kauphallarblaðinu sem fylgdi Viðskiptablaðinu 11. september 2014. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .