Davíð Oddsson og Halla Tómasdóttir eru gerð að táknmyndum fyrir þá sem ofmeta og vanmeta eigin getu í nýjustu bók sálfræðiprófessorsins Adam Grant, Think Again. Bókin, fór í efsta sæti New York Times metsölulistans í flokki skáldleysa (e. Non-fiction) þegar hún kom út í síðasta mánuði. Í bókinni er einn kafli tileinkaður forsetakosningunum árið 2016 sem ber nafnið „The Armchair Quarterback and the Impostor“ og er þar vísað til Davíðs og Höllu.

Grant setur forsetaframboð Davíðs í samhengi við DunningKruger áhrifin svokölluðu. Þau lýsa sér þannig að fólk ofmeti getu sína stórlega á þeim sviðum sem það hafi takmarkaða þekkingu á. „Þrátt fyrir að Dunning-Kruger áhrifin geti verið brosleg í daglegu lífi, voru þau ekkert aðhlátursefni á Íslandi,“ segir Grant.

Hann rifjar upp að Davíð hafi verið á lista Time yfir þá 25 einstaklinga sem bæru mesta ábyrgð á fjármálahruninu árið 2008 á heimsvísu. Í seðlabankastjóratíð Davíðs hafi bankakerfið vaxið í tífalda landsframleiðslu og svo fallið. Áður hafi þeir verið einkavæddir í forsætisráðherratíð Davíðs. Þá setur Grant endalok Þjóðhagsstofnunar í samhengi við meinta andúð Davíðs á sérfræðingum.

Hroki Davíðs og ofmat á eigin getu hafi haft í för með sér að hann ofmat til muna möguleika sína á árangri í forsetakosningunum. Grant segir Davíð minna á leikstjórnandann úr hægindastólnum – þá sem horfi á íþróttir í sjónvarpinu og séu fullvissir um að þeir geti staðið sig betur en þjálfarinn á vellinum.

Þrátt fyrir bankahrunið hafi Davíð „neitað að viðurkenna að hann væri ekki fær um að vera þjálfari – hvað þá leikstjórnandi. Hann var blindur á eigin veikleika,“ segir Grant í bókinni.

Halla hafi þjáðst af blekkingarheilkenni

Á meðan hafi Halla verið mjög efins um eigið ágæti og getu sína til að bjóða sig fram til forseta. Rætt er við Höllu í bókinni sem rifjar upp upp símtal sem hún fékk í desember 2015 þar sem hún var hvött til að bjóða sig fram í forsetakosningunum.

Í bókinni segist Halla alla tíð hafa þjáðst af blekkingarheilkenninu (e. impostor syndrome), sem hafi náð hápunkti þegar hún var hvött til forsetaframboðsins. Halla taldi sig hvorki hafa næga reynslu né nægt sjálfstraust til að bjóða sig fram.

Því hafi hún fremur hvatt aðrar konur til að bjóða sig fram, meðal annars Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra. Grant bendir á að þótt Halla hafi efast um eigið ágæti hafi hún þó áður komið að stofnun Háskólans í Reykjavík og stofnað og rekið fjármálafyrirtæki, Auði Capital, sem komst í gegnum bankahrunið.

Þá er rifjað upp í bókinni að Halla hafi rétt náð inn í fyrstu sjónvarpskappræður fyrir kosningarnar þar sem krafa var um 2,5% fylgi í könnunum. Framboði Höllu hafi hins vegar vaxið ásmegin eftir því sem leið á kosningabaráttuna og endaði Halla með næstflest atkvæði og 28% fylgi. Framboð Davíðs hafi hins vegar aldrei komist á flug, en Davíð endaði fjórði í kjörinu með tæplega 14% atkvæða.

Vinsæll fyrirlesari og ráðgjafi stórfyrirtækja

Grant er vinsæll fyrirlesari og rithöfundur. Hann varð yngsti prófessorinn í sögu Wharton háskóla til að fá fastráðningu, 29 ára. Þá hefur hann meðal annars verið á lista Fortune yfir 40 áhrifamestu ungu leiðtogana undir fertugu og verið útnefndur áhrifamesti hugsuðurinn í stjórnun fyrirtækja af samtökunum Thinkers50. Í umfjöllun Fortune segir að Grant hafi verið „stjórnunarráðgjafinn“ í Kísildalnum og mörgum af stærstu fyrirtækjum Bandaríkjanna. Grant hefur skrifað nokkrar bækur á síðustu árum, þar á meðal eina með Sheryl Sandberg, framkvæmdastjóra Facebook.

Á kápu bókarinnar eru ummæli frá hjónunum Bill og Melindu Gates þar sem bókinni er hrósað. Í bókadómi WSJ er Grant sagður hafa sérhæft sig í að koma á framfæri „notalegum sannindum“. Í fyrri bókum hafi boðskapurinn til að mynda verið að örlátustu starfsmennirnir á hverjum vinnustað séu þeir sem geti náð mestum árangri. Honum takist að setja fram þekkingu úr fræðiritum hegðunarsálfræði í jákvæðan búning sem ætti einna helst heima í sjónvarpsþáttum Opruh Winfrey.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .