*

laugardagur, 12. júní 2021
Innlent 13. maí 2018 16:09

Hæfilegt að sitja í átta ár

Eyþór Arnalds sér ekki fyrir sér að hann verði áfram í borgarpólitíkinni eftir áratug. Hann segir lista Sjálfstæðisflokksins koma með ferska vinda.

Gunnar Dofri Ólafsson
Haraldur Guðjónsson

Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórnarkosningunum, var viðmlændi Viðskiptablaðsins í vikunni sem er að líða. Viðtalið í heild má lesa í Viðskiptablaðinu en annan bút úr viðtalinu má lesa hér.

Eru einhverjar erlendar borgir sem þú horfir til sem fyrirmynd Reykjavíkur?

„Skipulagslega er Reykjavík borgin við sundin eins og San Francisco, Stokkhólmur og slíkar borgir. Hún þarf þess vegna að fara vel með land og vera með góðar tengingar. Það vantar hringtengingar í Reykjavík. Það er auðvelt að gera það í landluktum borgum en í Stokkhólmi og San Francisco eru brýr og göng eitthvað sem þarf að horfa til. Sundabraut og Skerjabraut eru tengingar sem þyrfti til að ná hringtengingu um borgina. Þetta er skipulagslegi þátturinn. Hvað varðar menningu þá sé ég fyrir mér að Reykjavík verði skapandi borg. Við eigum að leggja áherslu á skapandi hugsun í skólakerfinu til að búa börnin okkar undir 21. öldina. Við keppum ekki við tölvur í að muna eða reikna en við getum keppt í að vera skapandi því við höfum grunninn til þess. Við erum með sterka tónlistar- og bókmenntahefð. Ef Reykjavík byggir á þeim grunni þá getur hún verið mjög spennandi borg.“

Hvernig sérðu Reykjavík fyrir þér eftir tíu ár?

„Ég sé fyrir mér að Reykjavík verði fyrsti valkosturinn fyrir börnin mín og sé samkeppnishæf við flottustu borgir Evrópu. Framtíðarmarkmiðið ætti að vera að hún sé mest spennandi borg í Evrópu að búa í. Það væri mitt markmið.“ '

Sérðu sjálfur fyrir þér að vera í þessu eftir tíu ár?

„Nei, það er engum hollt að vera lengur en svona átta ár í þessu starfi. Þegar menn verða værukærir og samdauna kerfinu eiga þeir ekkert erindi og hafa engan tilgang. Ég var átta ár í Árborg. Það var hæfilegt.“

Það stefnir í mjög mikla endurnýjun hjá Sjálfstæðisflokknum eftir kosningar. Heldurðu að þennan lista skorti að einhverju leyti reynslu?

„Nei, ég held ekki. Bæði ég og Örn Þórðarson höfum stjórnað sveitarfélögum á Suðurlandi, hann í Rangárþingi og ég í Árborg. 1998 til 2002 var ég varaborgarfulltrúi og þekki stjórnkerfið í Reykjavík ágætlega. Það sem þessi listi hefur er ferskleiki. Hann er ekki samdauna kerfinu og við erum komin til að breyta.“

Myndir þú leiða borgarstjórnarhópinn í fjögur ár ef kosningarnar fara svo að Sjálfstæðisflokkurinn verður í minnihluta?

„Ég verð óhjákvæmilega kjörinn oddviti og ætla mér að vera oddviti stærsta flokksins og ég ætla mér að stærsti flokkurinn leiði breytingar hér í borginni. Það er bara mitt markmið og ég horfi bara á það.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.