*

föstudagur, 19. júlí 2019
Erlent 15. júlí 2016 12:48

Hægari vöxtur í Kína

Kínverskar hagtölur ýta undir áhyggjur. Hagvöxtur var þó 6,7% á öðrum ársfjórðungi.

Ritstjórn
Miklar niðursveiflur hafa átt sér stað á kínverskum mörkuðum
european pressphoto agency

Kínverska hagkerfið óx um 6,7% á öðrum ársfjórðungi 2016, en greiningaraðilar höfðu spáð fyrir um 6,6% hagvöxt. Svartsýni meðal fjárfesta virðist engu að síður vera að aukast, og hafa markaðir í Kína lækkað verulega síðan 12 júní 2015.

Kínversk yfirvöld hafa aukið útgjöld verulega á undanförnum árum, og hafa þeir sett sér markmið um að vaxa um allt að 7% árlega. Samdráttur hefur verið í einkageiranum og á fasteignamörkuðum, og telja fagaðilar líklegt að stjórnvöld muni auka útgjöld enn frekar til þess að ná fram markmiðum sínum.

Útlán kínverskra banka hafa aukist á undanförnum sex mánuðum og hafa útgjöld hins opinbera hækkað um 20% milli mánaða. Fjárfesting í einkageiranum er í mikilli lægð og hefur útflutningur dregist saman. Neysla jókst samt sem áður meðal Kínverja og hafði meiri áhrif á hagvöxt en gert var ráð fyrir.

Zhu Haibin, yfirhagfræðingur JPMorgan China, telur Kínversk yfirvöld ætla að auka útgjöld á næstu 6 mánuðum. Hann telur það einnig líklegt að stýrivaxtalækkanir eigi eftir að eiga sér stað. Kínverjar gætu einnig þurft að ráðast í endurskipulagningu á skuldum.

Hagfræðingurinn Paul Krugman, segir Kína vera í svipaðri stöðu og Japan eftir 1980. Hann hefur spáð mikilli kreppu í Kína undanfarin tvö ár, og ætlar að halda sig við þær spár.