Svo virðist sem hægt hafi á vexti innlendrar eftirspurnar eftir því sem liðið hefur á árið og eru vísbendingar um að vöxtur einkaneyslu á þriðja ársfjórðungi í ár verði heldur hægari en á undanförnum fjórðungum, hann verði jafnvel sá hægasti síðan á fyrsta fjórðungi í fyrra.

Greining Íslandsbanka fjallar um málið í Morgunkorni deildarinnar í dag. Þar er m.a. bent á að í ágúst hafi kortavelta einstaklinga dregist saman um 2,6% að raungildi á milli ára.

„Óhætt [er] að segja að svo mikil leitni í þessa átt hafi komið okkur á óvart. Þó ber eðlilega að taka sveiflum milli mánaða með fyrirvara enda geta þær verið talsverðar, og má hér benda á að mánuðinn á undan var vöxturinn 4,0% frá sama tíma árið áður,“ segir í Morgunkorninu og rifjað upp að hægingin hafi verið ein helstu rök peningastefnunefndar Seðlabankans fyrir óbreyttum stýrivöxtum á vaxtaákvörðunarfundi í síðustu viku.