Brottfarir erlendra farþega um Keflavíkurflugvöll voru 160.078 í febrúar síðastliðnum samkvæmt talningum Ferðamálastofu og Isavia í Flugstöð Leifs Eiríkssonar eða um 11.700 fleiri en í febrúar á síðasta ári.

Aukningin nemur 7,9% milli ára sem er sambærileg þeirri aukningu sem var í nóvember (9,8%), desember (8,4%) og janúar (8,5%) síðastliðnum en umtalsvert minni en í febrúar síðustu ára þegar hún nam 47,3%.

Bretar og Bandaríkjamenn voru fjölmennastir í febrúar og stendur fjöldi þeirra í stað á milli ára. Brottförum þjóðerna sem falla undir annað fjölgar mest en þar eru mest áberandi Austur Evrópubúar og Asíubúar. Í heild hefur fjöldi brottfara í febrúar meira en þrefaldast á undanförnum fimm árum.

Frá áramótum hafa 307.600 erlendir farþegar farið úr landi um Keflavíkurflugvöll sem er 8,2% aukning miðað við sama tímabil í fyrra. Því er ljóst að hægja hefur tekið á fjölgun ferðamanna fyrstu mánuði ársins.