Í greinum sem einkenna ferðaþjónustuna voru 1.727 launagreiðendur í febrúar á þessu ári og 24.700 launþegar sem er aukning um 700 frá sama tíma fyrir ári. Þetta kemur fram í tölum Hagstofunnar .

Það gerir 3% aukningu, en í janúar nam ársfjölgunin 5% og hafði hún ekki verið minni frá því í febrúar 2011. Í ágúst í fyrra fór fjölgunin í fyrsta sinn frá því í ágúst 2014 niður fyrir tveggja stafa tölu, þegar hún fór úr 10% niður í 9% milli mánaða. Síðast nam fjölgunin mest í janúar 2017, eða 21%, en sú aukning hefur náð nokkrum sinnum síðan árið 2010.

Í febrúar á þessu ári hefur launþegum fjölgað í heild um 4% eða 6.800 manns, en mest var fjölgunin í flokki Byggingarstarfsemi og mannvirkjagerðar, eða 13%, það er úr 11.300 manns í 12.700. Nam fjölgunin 2.635 manns.

Á 12 mánaða tímabili, frá mars 2017 til febrúar 2018, voru að jafnaði 17.097 launagreiðendur á Íslandi og hafði þeim fjölgað um 662, eða 3,9%, frá síðustu 12 mánuðum þar á undan. Á sama tímabili greiddu launagreiðendur að meðaltali um 184.300 einstaklingum laun sem er aukning um 8.400, eða 4,6%, samanborið við 12 mánaða tímabil ári fyrr.