Dregið hefur úr hraðanum á fjölgun launþega og launagreiðanda í byggingariðnaði og ferðaþjónustu að því er nýjustu tölur Hagstofunnar greina frá. Launþegum fækkaði hins vegar í sjávarútvegi. Nam fjölgun launagreiðenda á 12 mánaða tímabili frá júlí 2016 til júní 2017 4,4%, eða um 772, og voru þeir að jafnaði 17.166 á tímabilinu.

Á sama tíma fjölgaði launþegum um 4,9%, eða 8.600 en að meðaltali fengu 184.200 einstaklingar laun á tímabilinu. Í Byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð voru í júní 2.557 launagreiðendur og 12.900 launþegar, og hafði þeim fjölgað um 1.500 eða 13% samanborið við júní árið 2016.

Á sama tíma voru 1.809 launagreiðendur og 29.300 launþegar í einkennandi greinum ferðaþjónustu og hafði launþegum fjölgað um 2.500 eða 9% á einu ári. Launþegar í heildina hafa á þessum tólf mánuðum fjölgað um 6.700 eða 4%.