Smásala dróst saman um 0,5% í Bandaríkjunum í júní. Þetta er þriðji mánuðirinn í röð sem velta í smásölu dregst saman. Samdrátturinn nær til nær allra flokka, svo sem til raftækja og bíla. Reuters-fréttastofan hefur eftir fjármálasérfræðingi að tölurnar séu vísbendingar um að hægja sé frekar á hjólum efnahagslífsins vestanhafs. Þetta er þvert á væntingar markaðsaðila sem bjuggust við 0,2% aukningu í smásölu.

Þá er bent á það í umfjöllun Reuters um málið að tölurnar endurspegli mikið atvinnuleysi í Bandaríkjunum. Neytendur séu farnir að halda fastar um budduna en áður. Það geti svo komið niður á hagtölum þar sem hlutur einkaneyslu í hagvaxtartölum í Bandaríkjunum er í kringum 70%.