Kínverska hagkerfið stækkaði um 7,7% á ársgrundvelli á fyrsta fjórðungi þessa árs, sem er minni vöxtur en gert hafði verið ráð fyrir. Meðalspá sérfræðinga gerði ráð fyrir um 8,0% vexti á tímabilinu og hagvöxtur var 7,9% á síðasta fjórðungi ársins 2012.

Í frétt BBC segir að kínversk stjórnvöld vilji ýta undir hagvöxt núna m.a. vegna þess að hagvöxtur árið 2012 var sá minnsti í þrettán ár. Aðrar lykiltölur benda til þess að kínverska hagkerfið sé að hægja á sér. Framleiðsla jókst um 8,9% í mars, en spár gerðu ráð fyrir 10% vexti. Fjárfestingar í fastafjármönum jukust um 20,9% á fyrsta fjórðungi ársins, en spár gerðu ráð fyrir ríflega 21% vexti.

Undanfarin ár hefur Kína reitt sig mjög á útflutning og fjárfestingu til að tryggja hagvöxt. Veik staða stærstu markaðssvæða kínverskra fyrirtækja, einkum Bandaríkjanna og Evrópu, hefur leitt til minnkandi útflutningstekna og verða þær raddir háværari sem mæla með því að Kínverjar endurskipuleggi hagkerfið með meiri áherslu á einkaneyslu. Kínversk stjórnvöld hafa að einhverju leyti tekið undir þetta.