Það hægir á ráðningum í Bandaríkjunum og hafa þær ekki verið færri í meira en fimm ár. Fjölgaði vinnandi fólki einungis um 38 þúsund manns í maí auk þess sem mat á störfum sem bættust við í apríl og mars var lækkað um 59 þúsund.

Minnkandi atvinnuþátttaka

Samt sem áður minnkaði atvinnuleysi í landinu en það er fyrst og fremst vegna þess að færra fólk er að leita sér að vinnu og telst þar af leiðandi til vinnuaflsins. Hagfræðingar höfðu spáð því að störfum myndi fjölga um 158 þúsund og atvinnuleysið myndi haldast stöðugt.

Hægur vöxtur atvinnumarkaðarins í maí og endurmat á fyrri mánuðum færir meðalvinnuaflstölur niður frá 219 þúsundum í 116 þúsund störf. Curt Long hagfræðingur hjá NAFCU segir „atvinnuleysi minnkaði en af röngum ástæðum þar sem vinnuaflsþátttaka minnkaði annan mánuðinn í röð.“

Hutfall Bandaríkjamanna á vinnumarkaði lækkaði um 0,2 prósentustig og fór niður í 62,6% í maí. Mun þetta draga úr væntingum um að Seðlabanki Bandaríkjanna muni hækka vexti.