Vörusala Haga jókst um rétt rúm 0,3 prósentustig frá öðrum ársfjórðungi síðasta árs til annars ársfjórðungs þessa árs en hægur tekjuvöxtur félagsins er talinn vera stærstu tíðindi uppgjörsins.

„Í takt við lækkandi verðbólgu mátti gera ráð fyrir að hægja myndi á tekjuvexti félagsins. Vöxtur tekna Haga var hins vegar nokkuð minni en við gerðum ráð fyrir sem og markaðurinn og því má ætla að hann hafi brugðist við með þessum hætti,“ segir Elvar Möller hjá greiningardeild Arion banka um uppgjörið en Jóhann Viðar Ívarsson hjá IFS greiningu tekur í sama streng.

„Menn eru vanari því að tekjur Haga vaxi umfram verðbólgu og nálægt því að fylgja hagvexti. Þetta virtist ekki fara vel í markaðinn þrátt fyrir góða arðsemi enda hefur gengi hlutabréfa í Högum lækkað um 8% frá toppnum,“ segir Jóhann.

Nánar er fjallað um málið í Kauphallarblaðinu sem fylgir Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .