Li Keqiang forsætisráðherra Kína sagðist í dag vera tilbúinn til að beita sértökum örvunaraðgerðum ef hagvöxtur þar á landi næði ekki settu marki. Li talaði í dag á árlegum blaðamannafundi þar sem hann fór yfir stöðu mála en hagvöxtur síðasta árs var sá minnsti í Kína í 25 ár.

Yfirvöld í Kína hafa lækkað hagvaxtarmarkmið sitt þar sem hagvöxtur síðasta árs nam 7,4 prósentum og hefur ekki verið lægri síðan árið 1990. Á fundinum sagði Li að þrátt fyrir að markmiðið hefði verið lækkað þá væri alls ekki auðvelt að ná því. Kínversk landsframleiðsla er orðin hærri en sem nemur tíu trilljónum bandaríkjadollara og því yrði sjö prósentustiga hagvöxtur jafngildur landsframleiðslu heils hagkerfis meðalstórrar þjóðar.

Heildarskuldir í Kína náðu 282% af landsframleiðslu um mitt síðasta ár sem er hærra hlutfall en bæði í Bandaríkjunum og í Þýskalandi. Þessar skuldir hafa næstum fjórfaldast á síðustu sjö árum, frá sjö trilljónum bandaríkjadollara í 28 trilljónir. Spurður að því hvað kínversk stjórnvöld séu tilbúin að gera til að koma í veg fyrir hægari vöxt sagði Li á blaðamannafundinum að þau myndu ekki hika við að notfæra sér sértækar örvunaraðgerðir.

Nánar er fjallað um málið á vef Financial Times .